11.6.2007 | 12:34
Kjúklingur í hnetusósu
Ég geri venjulega mikið af þessum rétti. Elda tvo úrbeinaða kjúklinga í senn og frysti síðan afganga til að hafa með í vinnuna. Ég held þetta sé í hollara lagi ef fólk er að velja hráefnið rétt, nota passlegt magn af hollri steikingarolíu, jafnvel kókosfeiti.
- 2 Úrbeinaðir Kjúklingar
- 2 Rauðar/Appelsínugular paprikur
- 1 Mangó (milliþroskaður, má vera vel stífur)
- Banani
- Rúsínur
- Hnetur (mega vera venjulegar hnetur, Cashew eru samt bestar)
- Hnetumauk (Satay)
- 1-2 dósir kókosmjólk
- 1 dós Gular baunir (eða Baby Corn stönglar)
- Turmeric
- Mulin Kóríander fræ
- Gæðakarrí (til dæmis frá pottagöldrum)
- Mango Chutney
Skerið laukinn niður og látið malla undir lágum hita. Kryddið með því laufkryddi sem ykkur fýsir, hér myndu sumir setja kardimommu út í. Skerið niður paprikuna, flysjið og skerið mangóinn. Það er vandasamt að ná öllu aldinkjötinu af en með æfingu næst það. Mér finnst reyndar bara gott að naga hann meðan ég steiki ;) Setjið næst hnetur og rúsínur út í laukmallið.
Skerið kjúklingakjötið í strimla. Setjið olíu á flata steikingapönnu og hitið upp í millihita. Setjir kóríanderfræ og túrmeric við smekk á pönnuna og hrærið í. Þegar hættir að krauma í henni, hækkið hitann á hæsta hita og skellið kjúklingnum á og veltið vel upp úr.
Skellið nú papriku og mangó útí laukmaukið og hækkið hitann til að ná að steikja. Ef þið viljið mikið af sósu notið þá 2 dósir af kókosmjólk, annars eina. Að lokum bætið duftkryddi út í (karrí) og fiskið kardimommuna upp úr. Látið malla meðan kjúklingurinn lýkur steikingartíma og hendið honum út í mallið.
Á mínu heimili sker síðan hver fyrir sig banana ef hann vill en ekkert mælir gegn því að honum sé raðað ofan á réttinn. Bara ekki blanda honum saman við, bestur er hann þegar hann nær ekki að maukast af hitanum.
Njótið vel.
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkur: Lífstíll | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.